Lög

1. gr.
Félagið heitir Hrossaræktarsamband Vesturlands og starfar samkvæmt gildandi búfjárræktarlögum. Félagssvæðið er frá  Hvalfjarðarbotni að Hrútafjarðarbotni.  Auk þess Strandasýsla, Austur-Barðastrandasýsla og félagssvæði Storms. Heimili þess og varnarþing er þar sem formaður þess er búsettur.

2. gr.
Markmið sambandsins er að efla hrossarækt á félagssvæðinu. Tilgangi sínum hyggst sambandið ná með því að gera hrossin verðmætari með kynbótum og eiga í þeim tilgangi sem best úrval stóðhesta til notkunar fyrir félagsmenn eða útvega þá á leigu.

3. gr.
Sambandið beiti sér fyrir því að ráðunautar fylgist með efnilegum stóðhestum fram að tamningaraldri.

4. gr.
Sambandið starfar í deildum. Stjórn sambandsins úthlutar hestum til deilda, sem þess óska, eftir vinnureglum stjórnar sem samþykktar skulu á aðalfundi/haustfundi hverju sinni.

5. gr.
Aðilar að sambandinu eru hinar ýmsu deildir sbr. gildandi búfjarræktarlög svo og félagsheildir, enda hafi þær sömu réttindi og skyldur og aðrar deildir. Í kynbótanefnd hverrar deildar eru þrír menn og eru þeir sjálfkjörnir fulltrúar á aðalfund sambandsins með fullum réttindum. Félög eða félagsheildir, þar sem deildir starfa ekki, en hafa hrossarækt á stefnuskrá og sinna henni, hafa tvö atkvæði fyrir fyrstu 20 félagna, en síðan eitt atkvæði fyrir hverja 30 félaga eða brot, en þó aldrei fleiri er fjögur atkvæði.

6. gr.
Stofnun nýrra deilda er háð samþykki aðalfundar, fullnægi hún gildandi búfjárræktarlögum.

7. gr.
Árlegar tekjur sambandsins eru:
1. Tekjur af stóðhestum.
2. Framlög samkvæmt búfjárræktarlögum.
3. Verð seldra stóðhesta
4. Vextir af sjóðum og fleira.

8. gr.
Sambandinu stýrir fimm manna stjórn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og einn meðstjórnandi. Kjörtímabil stjórnar er tvö ár, annað árið eru formaður og varaformaður kosnir en hitt árið þrír meðstjórnendur sem skipta með sér verkum. Varamenn eru þrír og kosnir árlega. Skoðunarmenn skulu vera tveir og jafn margir til vara, kosnir árlega. Kosningar skulu vera skriflegar og ræður afl atkvæða úrslitum. Kjörgengir í stjórn sambandsins eru félagar allra deilda og félaga, sem standa að sambandinu. Kjósa má skoðunarmenn opinberlega, ef mótmælum er ekki hreyft.

9. gr.
Aðalfund skal halda árlega í apríl til júní og boða skal til hans með viku fyrirvara. Hann hefur æðsta vald í öllum málum sambandsins. Verkefni hans eru:
1. Skýrslur sambandsstjórnar.
2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar.
3,. Stjórnarkosningar
4. Önnur mál.

10.gr.
Lögum þessum má eigi breyta, nema á aðalfundi sambandsins og þarf 3/4 hluta atkvæða fundarmanna til þess að breytingar taki gildi og skal boða lagabreytingu í fundarboði. Fundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað.